Að Fagfélögunum standa fjögur öflug iðnfélög sem vinna að því sameiginlega markmiði að standa vörð um og berjast fyrir hagsmunum og réttindum iðn- og tæknifólks. Um leið leitast félögin við að veita félagsfólki, liðlega 15 þúsund manns, fyrsta flokks þjónustu og stuðning. Fagfélögin eru stærstu samtök launafólks á Íslandi í iðn- og tæknigreinum.
Félögin eru:
- Byggiðn – Félag byggingamanna
- MATVÍS – Félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum
- RSÍ – Rafiðnaðarsamband Íslands og aðildarfélög
- VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna
Nú snemma árs 2024 losna kjarasamningar og standa Fagfélögin í ströngu þess vegna. Auglýsingaherferð Fagfélaganna undir slagorðinu „Ekki okkar verðbólga“ er til þess fallin að vekja athygli á að launafólk ber ekki ábyrgð á mikilli verðbólgu og háum vöxtum. Verðlag hefur hækkað langt umfram umsamdar launahækkanir.
Í nóvember 2023 voru liðin fjögur ár frá því félögin fluttu undir eitt þak, í Hús Fagfélaganna. Þau hafa allar götur síðan unnið saman við gerð kjarasamninga og með fjölbreyttum hætti samnýtt þann kraft og þá sérþekkingu sem býr í mannauði þessara félaga.
Í dag reka félögin einnig sameiginlega móttöku og þjónustuskrifstofu sem sinnir daglegum erindum félagsfólks. Skrifstofan annast einnig bókhald, félagatal, eftirlit með innheimtu, afgreiðslu orlofshúsa, afgreiðslu styrkja og alla almenna skrifstofuvinnu. Þá reka félögin sameiginlegt vinnustaðaeftirlit og lögfræðiþjónustu, auk þess sem félögin samnýta húsnæði og alla aðstöðu. Í þessu felst mikil hagræðing.
Þrátt fyrir þessa miklu samvinnu og samnýtingu halda félögin sjálfstæði sínu og eigin ákvörðunarrétti.
Félögin í Húsi fagfélaganna vinna ötullega saman að því að þjónusta iðn- og tæknifólk og tala máli þeirra út á við. Með samstarfinu hafa félögin öðlast aukinn slagkraft og hæfni til að berjast fyrir hagsmunum iðn- og tæknifólks á Íslandi.